Mikið að gera

Já ofan á tölvunördsskortinn er búið að vera brjálað að gera!

Ég fer í leikfimi 4-5 sinnum í viku og svo er ég komin í Kvennakór Hafnafjarðar sem er hörkupúl en mjög gaman. Við áttum einmitt að vera að fara í æfingabúðir um helgina að Laugum í Sælingsdal en þær voru færðar í bæinn vegna veðurs.

Svo þarf maður að ala börnin upp og sjá um heimilið og knúsa kallinn og þvo og brjóta saman og skúra og skutla hingað og þangað og og og og....

Stundum er ég spurð að því hvað ég geri allan daginn og þá svara ég "ég veit það ekki alveg en það tekur rosalega langan tíma"

En nú er framtakssemin alveg að drepa mig og ég er búin að virkja þráðlausa netið hjá mér og get því haft tölvuna uppi og jafnvel bara setið í sófanum og pikkað eins og núna! Kannski verð ég bara dugleg að blogga!

Sjáum til.


Tölvunörd

Ég verð seint talin tölvunörd!

Það er svo langt síðan ég hef opnað póstinn minn að það er búið að loka fínu hotmail adressunni minni og allur pósturinn sem hafði safnast upp er horfinn! Ég gat reyndar virkjað adressuna aftur en allt sem hafði safnast upp er farið. Svo ef einhver sendi mér mikilvægan tölvupóst sem ég svaraði ekki þá bara verður að hafa það! Næst skuluð þið hringja!

En....

Ég fór til USA og það var æðislegt! Reyndar svo mikið gaman að ég gleymdi að kaupa helminginn af jólagjöfunum sem ég ætlaði að kaupa. Við lentum í allskonar ævintýrum sem ég ætla ekki að hafa eftir hér, og við sátum ekki inn á herbergi grenjandi yfir Pílu Pínu allan tímann.

Jólin komu og fóru og voru fín

Áramótin sömuleiðis og þar með brúðkaupsafmælið okkar

Janúar kom og fór án þess að nokkur tæki eftir því

Og nú er febrúar

Ég ætla að reyna að kíkja aðeins oftar á tölvuræfilinn hér eftir þó það sé ekki nema til að halda póstfanginu opnu og þurrka af henni rykið.

Bæjó spæjó


Mottó

Bestu lífsreglur sem ég hef dottið um:

Etið og verið glöð

Elskið og verið glöð

Deyið og verið glöð

Þetta var prentað inn í minn heila frá barnæsku í ævintýrinu um Pílu Pínu sem var nýlega gefið út á geisladisk.

Nú get ég spilað þetta fyrir börnin mín og kennt þeim að vera glöð.

Annars er sagan um Pílu Pínu margslungin og skemmtileg og mikil ádeila á okkur mennina (Píla Pína er/var mús fyrir þá sem ekki vita) og hef ég átt margar góðar stundir með henni sem barn og svo aftur sem unglingur þegar ég og týttnefnd Solla vinkona spiluðum hana á vínil þegar við vorum á bömmer og grenjuðum úr okkur augun! Og nú aftur sem mamma með börnunum mínum sem finnst þessi saga alveg jafn skemmtileg, átakanleg, fyndin og sorgleg og mér fannst.

En...ég er farin til Ammeríku með Sollu, kannski tökum við diskinn með okkur, förum á kojufyllerí á hótelinu og grenjum eins og í gamla daga! Og vöknum daginn eftir og segjum: mikið var gaman í gærkvöldi! Það er bara stundum gaman að grenja soldið!


Jólin

Já nú koma jólin hlaupandi!

Ég sem er alltaf svo skipulögð og alltaf búin að öllu um þetta leiti, er ekki búin að neinu! Ég ætla nefnilega að kaupa allar jólagjafirnar í henni Ameríku og fer ekki þangað fyrr en í desember. Ég er alveg í rusli, farin að ímynda mér allskonar um að það verði hætt við flugið eða að allt klikki á einhvern hátt og að ég endi með því að þurfa að kaupa allar jólagjafirnar á Þorlák og pakka inn á aðfangadag.

Og það er eitthvað sem á ekki vel við mína.

En auðvitað verður þetta í lagi, ég fer bara til Ameríku, á 3 yndislega verslunardaga með Sollu minni, kem heim og redda þessu með stæl!

En ég er byrjuð á jólakortunum og geri aðrir betur!

Jólakveðja, frúin í kántrýbæ.

 


Ammalíga!

Hún systir mín á afmæli í dag sem gefur yngsta fjölskyldumeðlimnum ástæðu til að syngja:

Djödsí ammalíga! (Hjördís á afmæli í dag)

Þau eru ágæt þessi kríli.

Svo erum við öll í "maríum", og hún bendir okkur stöðugt á það og reynir að tosa niður um okkur buxurnar til að benda okkur á "maríurnar". (Naríur fyrir þá sem eru lengi að hugsa)

En...

Til hamingju með afmælið stóra systir, lifðu í lukku en ekki í krukku!


Myndir

Skutlaði inn nokkrum myndum frá Riga. Það var gaman að sjá þar að verið er að byggja borgina upp og t.d. verið að byggja hús eftir gömlum teikningum og heimildum, hús sem hafa eyðilagst í stríðum sem Riga hefur lent í vegna staðsetningar. Þar er svo líka verið að byggja fullt af nýtísku húsum en í gamla bænum eru mjög strangar reglur um hvað má byggja og hvað ekki.

Ég hefði getað set inn 267 myndir af gömlum húsum í viðbót því eins og þeir sem þekkja til vita þá hefur bóndinn áhuga á alsskyns byggingum og hann var með myndavélina allan tíman.

Svo eru líka myndir af brú með fullt af hengilásum sem brúðhjón hafa hengt á. Sagan segir að nýgift hjón eigi að ganga saman yfir 7 brýr og hengja lás á þá síðustu og því voru lásar á hinum og þessum brúm út um allt en svo tóku borgarvöld sig til og brutu upp alla lásana og færðu þá  á eina brú. Fararstjórinn okkar vildi meina að það væri ástæðan fyrir hárri skilnaðartíðni í Lettlandi en ég veit ekki hvað er til í því!

Njótið vel!


Nýtt blogg

Ég ákvað að færa mig aðeins í bloggheiminum til að allir sem lesa geti skrifað athugasemdir. Nú verður fróðlegt að sjá hverjir fylgjast með!

Ég vil þakka vinum mínum og vandamönnum kærlega fyrir frábært afmælispartý hér hjá mér 3.nóv síðastliðinn.

Annaðeins stuð hefur bara ekki sést hér í Hafnafirðinum!

Og takk fyrir allar gjafirnar, þær eru æði!

Enda sjáið þið það að ég hef ekki kveikt á tölvunni í rúma viku! Ég er bara enn að jafna mig!

Reyndar hvíslaði lítill fugl því að mér að ef maður vildivera fljótari að jafna sig þá ætti maður að drekka aðeins minna rauðvín, en ég sel það ekki dýrara en ég stal því!

Annars... allr að láta vita hvað þeim finnst um nýja bloggiðSmile


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband